Hvað er einelti?
Eins og Ýma tröllastelpa eigum við rétt á að vera við
sjálf. Börn sem verða fyrir einelti líða kvalir og eineltið
getur búið um sig í sálinni. Það vekur upp óþægilegar
minningar alla ævi.
En hvað er einelti?
Við tölum um einelti þegar einstaklingur verður aftur og
aftur fyrir neikvæðu og óþægilegu áreiti. Oftast eru að
verki einn eða í mesta lagi þrír einstaklingar. Stundum
eru fleiri sem standa að verki – jafnvel hópur. Sá sem
verður fyrir því á erfitt með að verja sig.
Við tölum um beint einelti ef það er sýnilegt: Nemendur
sem verða fyrir einelti í grunnskólum á Íslandi kvarta
flestir undan því að það sé verið að gera grín, uppnefna
eða stríða á óþægilegan og meiðandi hátt. Högg og
spörk og það að neyða einhvern til að gera eitthvað sem
hann/hún vill ekki taka þátt í eru einnig dæmi um beint
einelti.
Óbeint einelti er í flestum tilvikum ekki sýnilegt. Útilokun
er algengust. Eineltið getur tekið á sig ýmsar myndir;
okkur er ekki boðið í afmæli eða það er verið að koma
í veg fyrir að vinirnir verði áfram vinir manns. Gerendur
nýta sér oft netið til að ná sér niður á öðrum, breiða út
gróusögur eða reyna að útiloka á annan hátt. Óbeint
einelti getur verð mjög dulið og erfitt að uppgötva það.
Margt bendir til þess að óbeina eineltið sé kvalarfyllra og
marki dýpri spor en beina eineltið.
Ástæður eineltis
Hvers vegna leggja börn og unglingar í einelti?
Oftast fer eineltið af stað fyrir tilviljun. Börnin ætla ekki
að vera ,,vond“ við aðra. Það er fullorðinna að setja
mörkin. Bekkjarreglur (sem um leið eru skólareglur) eru
gagnlegar. Á bekkjarfundum eru reglurnar ræddar og
nemendur temja sér að bera virðingu hver fyrir öðrum.
Þrátt fyrir skýrar reglur og að starfsfólk sé vakandi á
einelti sér stað.
Það getur verið runnið undan rifjum einstakra nemenda;
nemenda sem eiga erfitt með að hlíta reglum, nemenda
sem virðast hafa þörf til að ráðskast með aðra. Og
enn eru það nemendur sem búa við óheppilegar
heimilisaðstæður (deilur á heimilinu) sem geta leitt til
þess að barnið sé ósátt og það reyni að ná sér niðri á
öðrum. Þá kann efnislegur eða félagslegur ávinningur
að liggja að baki eineltisatferli.
Bekkurinn er það athvarf sem barnið hefur. Þar á
barnið að búa við öryggi og það á að geta treyst hinum
fullorðnu. Börn takast á í leik og starfi. Í bekknum og
öðrum hópum geta myndast þær aðstæður að þær gefi
tilefni til þess að einhver fari að leggja í einelti.
Við köllum það félagslegt smit ef barn laðast að því að
taka þátt í eineltinu. Þetta gerist t.d. ef höfuðpaurinn er
vinsæll.
Ef kennarar eða aðrir fullorðnir spyrna ekki gegn
eineltinu er verið að umbuna gerandanum fyrir sigur á
þolandanum. Þetta getur lækkað þröskulda nemenda
sem eru að öðru jöfnu hlutlausir – og verða til þess að
þau fari sjálf að taka þátt í verknaðinum.
Áhrifagjarnir nemendur finna til minni ábyrgðar ef fjöldinn
kemst upp með að taka þátt í að leggja einhvern í einelti.
Afleiðingarnar verða þá að þessir nemendur taka þátt án
þess að hafa ætlað sér það.
Stöðugar árásir og niðurlægjandi athugasemdir verða
smám saman til þess að farið er að líta á þolandann
sem ómerkilega persónu sem „bíður eftir því“ að verða
tekin í gegn.
Eineltishringurinn er gott hjálpartæki. Við nýtum hann
m.a. til að ræða við börnin hvernig hópsamspil hefur áhrif
á viðbrögð nemenda.
Aldur og kyn
Stelpur sem verða fyrir einelti kvarta frekar undan
jafnöldrum sínum (og helst í sama bekk) en strákar.
Fleiri strákar en stelpur leggja aðra í einelti. Það er
algengara að strákar leggi stelpur í einelti en stelpur
stráka.
Einelti stúlkna snýst síður um líkamlegt ofbeldi en hjá
drengjum og erfiðara getur reynst að komast á snoðir
um það hjá stúlkunum. Þær beita yfirleitt óbeinum og
þaulhugsuðum aðferðum, svo sem illu umtali, útilokun
frá vinahópi og að eyðileggja vinasambönd, t.d. að taka
bestu vinkonuna frá viðkomandi.
Hvar á einelti sér stað?
3 af hverjum 10 nemendum sem lenda í einelti í
grunnskólum á Íslandi nefna skólalóðina sérstaklega.
Næstum því þriðji hver nemandi segir að eineltið eigi
sér stað í skólastofunni. Annað hvort þegar kennsla á
sér stað eða þegar enginn fullorðinn er í stofunni. 1
af hverjum 5 að eineltið sé á leið til eða frá skóla eða
í skólabíl. Þá kvarta börn og unglingar undan einelti í
leikfimisölum, sundi og sturtu og á salerni.
(Olweusaráætlun gegn einelti, eineltiskönnun 2008).
Einelti er þannig algengast í skólanum en ekki á leið í eða
úr skóla. Sú staðreynd leggur sérstaka ábyrgð á herðar
skólastjórnenda og kennara. Einelti eða tilhneiging
til eineltis á sér auðvitað stað víða annars staðar en í
skólum, til dæmis á leikvöllum, í heilsdagsskólanum, í
íþróttum og í félagsmiðstöðvum.
Hverjir eru lagðir í einelti?
Hver sem er getur lent í því að vera lagður/lögð í einelti.
Rannsóknir hafa þó gefið býsna skýra mynd af þeim sem
eru í hættu að verða lögð í einelti. Eitt eða fleiri einkenni
geta verið til staðar:
Ráðleggingar til foreldra
17