Hæ! Þetta er Ýma aftur. Eftir að ég bað Krissa
fyrirgefningar komst ég að því að hann er
einn besti strákur sem ég þekki. Hann er
æðislegur listamaður og teiknaði mynd af
mér. Ekki segja neinum, en ég held barasta að
ég sé skotin í honum.
Erla er líka alveg frábær, og ég skal segja
ykkur það að hún veit magnað mikið! Hún er
svo mikill lestrarhestur að hún hreinlega
spænir í sig bækur og man ótrúlegustu hluti.
Hún sagði mér meira að segja hvers vegna
himinninn er blár en það var svo löng skýring
að ég gleymdi henni eiginlega strax.
Krakkarnir segja við mig að ég sé alveg
rosalega skemmtileg og hress tröllastelpa.
Svakalega sterk og liðug. Í staðinn segi ég
þeim sögur af álfunum og tröllunum á Íslandi.
Nú er svo komið að þau segja að það sé algert
ævintýri að þekkja mig.
Vaka hefur kennt mér margt. Ég elska hana
svo mikið. Hún er eins og mamma mín, þó að
ég sé miklu miklu stærri en hún. Ég get sagt
henni allt og hún er
alltaf að leiðbeina
mér og hjálpar mér
svo mikið að
byggja mig upp.
Síðan hjálpa ég
Krissa og Erlu að
efla sjálfstraustið.
Vaka hefur hjálpað
mér að átta mig á
ýmsum þáttum í umhverfi
mínu og að ég verði að þekkja sjálfa mig vel
og vandlega og læra að elska mig eins og ég
er en ekki eins og ég haldi að aðrir vilji hafa
mig. Ég hélt til dæmis að stelpurnar vildu
bara vera með mér ef ég væri skvísa. Vaka
segir að ég verði að skilja sjálfa mig og hvetur
mig til að hugsa jákvætt og að ég eigi aldrei
að brjóta mig niður í huganum, sama hvað á
gengur. Ég ætla líka bara að halda áfram að
vera ég sjálf og segja nei ef einhver segir mér
að gera eitthvað óæskilegt sem ég kæri mig
ekki um, eins og þegar ég gyrti buxurnar
niður um Krissa, sem er rangt.
Geturðu teiknað mynd af þér eins og þú ert þegar þér líður vel?
16