Kæri skólastjóri
Það er einlæg von okkar að bækurnar um Ýmu komist í hendur allra 1. bekkinga á þessu hausti. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að vekja alla til umhugsunar um hve mikilvægt það er að öll börn þori að vera - og geti verið - þau sjálf. Einnig að þau njóti sín í leik og starfi á eigin forsendum.
Við sem erum fullorðin berum mikla ábyrgð á velferð barnanna. Umræðan í bekknum um Ýmu vonum við að styrki kennara til að axla betur þá ábyrgð. Kannanir sýna að almennt er efnið notað í grunnskólum í kennslustundum eins og lífsleikni og á bekkjarfundum. Einnig hafa kennarar vísað í efnið ef mál koma upp í samskiptum nemenda. Eineltishringurinn er einnig mikið nýttur í umræðunni um Ýmu. Efnið hefur hjálpað nemendum að setja sig í spor annarra og verið gott umræðuefni um líðan í bekknum. Gott viðfangsefni um fjölmenningu og að ræða það að engir tveir eru eins.
Ýma tröllastelpa er verkefni sem Prentmet gefur út í samstarfi við Olweusaráætlunina gegn einelti. Höfundur Ýmu tröllastelpu er Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir. Ýma er einskonar tákngervingur fyrir markmið og tilgang þeirra sem berjast gegn einelti. Hún fer aðeins fram á að fá að vera hún sjálf, sama hvað aðrir segja um hana. Það getur hver sem er orðið fyrir einelti og því er mikilvægt að stuðla að umhverfi sem kemur í veg fyrir slíkt. Bókin um Ýmu tröllastelpu er gefin öllum krökkum sem eru að hefja nám í grunnskóla.
Kennsluleiðbeiningar fylgja. Kennarar á yngsta stigi eru eindregið hvattir til að nýta sér efni og möguleika bókarinnar til að vekja yngstu börnin til umhugsunar um einelti og afleiðingar þess. Baráttan gegn einelti er okkar hjartans mál.
Þorlákur H. Helgason, |
Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir, |