Ýma er engri lík. Og þannig erum við öll. Við erum öll einstök. Umfjöllun um Ýmu ætti að falla vel að markmiðum í kennslu í upphafi grunnskóla. Þá ætti hún líka að eiga erindi til foreldra. Í samspili skóla og heimilis má sjá skemmtilega fleti.

Hvar á Ýma heima?
Í skólanámsskrá er kveðið nánar á um útfærslur á aðalnámsskrá grunnskóla. Ýma gæti átt heima í ýmsum námsgreinum eins og lífsleikni (í þeim skólum þar sem hún er kennd sem sjálfstæð námsgrein í 1. bekk) og í samfélags- og siðfræði. Þá er spennandi að hugsa Ýmu á stalli utan hefðbundinna námsgreina. Koma þá upp í hugann morgunstundir (morgunkrókur), samskipti vinabekkja, samvinna leik- og grunnskóla og fleira.

Skipulagðir bekkjafundir eru dæmi um heppilegan vettvang fyrir umræðu með börnunum út frá efni Ýmu. Hér er haft í huga fyrirkomulag þar sem nemendur sitja í hring eða hálfhring, kennari stjórnar fundi og orðið gengur milli nemenda á skipulegan hátt.

Hvaða umræðuefni gefur Ýma tilefni til að fjallað sé um – og sem fellur vel að markmiðum í 1. bekk?
Um markmið (eitt af fleirum) kennslu í 1. bekk segir í tilteknum skóla að nemendur ... skilji mikilvægi fjölskyldu, vina og skólafélaga og gildi þess að vera hluti af hópi. Í sama skóla eru leiðarljós skólans m.a.: Við komum fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur (úr skólanámsskrá Hvaleyrarskóla 2009–2010). Hvernig gæti Ýma hjálpað til í þessum skóla? Nefnum fyrst nokkur dæmi um umræðuefni á bekkjarfundi:

  • Samskipti
  • Ég - þú - bekkurinn
  • Hvað er góður vinur
  • Ólík menning (fjölmenning)
  • Virðing
  • Góð gildi heima og í skóla
  • Traust

Efnið er víðtækt – og allt út frá Ýmu. Dæmi: Börnin lita ákveðna mynd (t.d. þegar Ýma skoðar sig í speglinum) eftir umræðu um tiltekið efni. Speglar litaval gleði eða sorg? Einnig má hugsa sér að ljúka bekkjarfundinum með annarri (stuttri) umræðu. Þá er myndin sjálf orðin að umræðuefni.

Enn kæmi til greina að undirbúa bekkjarfund þannig að börnin ræddu áður við foreldra sína um efnið. Þau fengju einhverja daga (eina viku) til að ná stund með foreldrum/foreldri og í framhaldinu væri bekkjarfundur.

Það er mikilvægt fyrir höfund Ýmu að fá viðbrögð ykkar, kæru kennarar. Hvernig nýtist ykkur Ýma? Lýsið efnistökum ykkar. Hvað heppnaðist vel? Hvað hefur komið ykkur á óvart? Hvað mætti ef til vill betrumbæta?

Ýma gefur líka gullið tækifæri til að færa umræðuna inn á það svið sem eineltishringurinn spannar. Af hverju er Ýma útundan? Hvers vegna segist hún ekki vilja vera öðruvísi? Ýma fer sjálf að reyna að leggja einhvern í einelti. Hvernig getum við látið öllum líða vel í bekknum? Hvernig er bekkjarandinn þar sem allir mega segja frá ef einhverjum líður illa?

Á eineltishringnum er dregin upp mynd af aðstæðum í dæmigerðu eineltismáli. Einstaklingur er lagður í einelti. Einn er höfuðpaur. Hann á sér liðsmenn í mismunandi styrkleikaflokki. Sá sem er síðastur í þeim hópi (óvirkur stuðningsaðili) vill líklega alls ekki vera í klappliði höfuðpaursins. Hann leitar skjóls þarna. Óttast að hann lendi sjálfur í því að verða lagður í einelti ef hann rífi sig út úr klappliðinu.

Eineltishringurinn getur staðið einn og sér. Frásögnin af Ýmu gefur einnig tilefni til að fjalla sérstaklega um hlutverk þolanda, gerenda og hvernig börnin geti orðið eins og sá græni á myndinni.

Einelti getur farið af stað fyrir tilviljun. Eitthvað gerist - og ef það er ekki stöðvað í fæðingu getur ástandið orðið mjög alvarlegt. Bekkurinn er sú heild sem börnin samsama sig við. Það er því mikilvægt að börnin finni öryggi og traust. Þau geti t.d sagt frá ef þeim líður illa eða ef þau vilja segja kennara að einhverjum í bekknum líði illa (og sé jafnvel lagður í einelti).

Einelti getur komið upp í bekknum af ástæðum sem skapast í nemendahópnum:

  1. Óöruggir krakkar laðast að vinsælum nemanda sem er að leggja í einelti. Þetta kallast félagslegt smit.
  2. Ef hvorki kennarar né samnemendur reyna að stöðva einelti geta hlutlausir nemendur farið að taka þátt í eineltinu. Eðlilegir þröskuldar (gegn einelti) hafa lækkað.
  3. Ef margir taka þátt í að leggja í einelti (til þeirra teljast líka þeir sem eru bara hlaupatíkur) finnst hverjum og einum hann bera minni ábyrgð. Tilfinningin er að þetta geri nú ekki svo mikið til.
  4. Ef þolandi verður fyrir stöðugum árásum án þess að fullorðnir grípi inn í verður smám saman farið að líta á þolandann sem óttalega ómerkilegan einstakling – sem næstum því biður um að vera barinn. Það skapast eins konar veiðileyfi á viðkomandi. Allir mega ná sér niðri á honum.

Ýma og eineltishringurinn eru góð saman. En það þarf að gera sér grein fyrir því að einelti getur verið dauðans alvara. Ábyrgð kennara er mikil en skólinn sem heild þarf að standa saman. Sameiginleg eineltisáætlun alls skólans er mikilvægur liður í að skapa sátt í skólasamfélaginu. Lifa í sátt og virða það að við erum ekki eins. Þeim sem finnst að þeir séu ekki eins og hinir, líður ekki vel.

Ýma á erindi til okkar.

Þorlákur H. Helgason,
framkvæmdastjóri Olweusaráætlunarinnar